Pistill sem ég skrifaði á vef KMK í tilefni óskarsverðlaunanna 2006.
Það má með sanni segja að kvikmyndir um líf og raunveruleika samkynhneigðra hafi átt náð fyrir augum kvikmyndaakademíunnar þetta árið.
Brokeback Mountain var tilnefnd til átta verðlauna og Capote og Transamerica til sjö samanlagt. Brokeback fékk þrenn verðlaun og Philip Seymour Hoffman hreppti verðlaun fyrir frammistöðu sína í hlutverki hins samkynhneigða rithöfundar Truman Capote.
Leikstjóri Brokeback Mountain Ang Lee sagði þegar hann tók við sínum óskar: ,, Mest ber okkur að þakka tveim mönnum sem eru í raun ekki til, þeir heita Ennis og Jack og kenndu okkur svo margt. Ekki aðeins um stöðu samkynhneigðs fólks í samfélagi okkar, heldur um ástina sjálfa." svo mörg voru þau orð.
Það er ekki alveg nýtt að myndir um samkynhneigð vinni til óskarsverðlauna. Skemmst er að minnast frammistöðu Philadelphia, Boy´s don't cry og Monster sem allar unnu til verðlauna á sínum tíma. En síðasta ár slær öll met og myndir um samkynhneigð hafa aldrei áður hlotið svo margar útnefningar áður.
Þess vegna hlýtur maður að spyrja sig: ,, hvers vegna?" Svarið er auðvelt, peningar og vinsældir. S.s. þetta er það sem markaðurinn vill sjá.
Undanfarin ár hafa mini seríur í sjónvarpi sýnt gagnkynhneigðum áhorfendum að samkynhneigt fólk hefur sömu áhugamál og samkynhneigð pör fást við sömu vandamál og upp koma í gagnkynhneigðum samböndum.
Þættir eins og Will og Grace, Queer Eye for the Straight Guy og L - Word fara sigurför um heiminn. Nú er jafnvel komin skopstæling af Queer Eye, grínþáttur þar sem gagnkynhneigðir karlmenn kenna hommum hvernig á að vera karlmannlegir. þátturinn kallast "Straight Plan for the Gay Man".
Já, allt sem er "gay" er greinilega að selja í sjónvarpi og þá er ekkert óeðlilegt að Hollywood fylgi í kjölfarið og stjörnuleikarar sækist eftir samkynhneigðum hlutverkum.
Heyrst hefur að Adam Sandler, Jude Law og Kate Moss sækist öll eftir "gay" hlutverkum sem er reyndar ekkert skrítið miðað við gengi Brokeback Mountain sem hefur alls unnið á ýmsum hátíðum 49 verðlaun og er tilnefnd til 37 verðlauna í viðbót. Capote var tilnefnd til 5 óskara og Philip Seymour Hoffman hefur nú landað tilnefningum Óskars, Golden Globe og Bafta.
Felicity Huffman sem við þekkjum úr "Desperate Housewives" var tilnefnd til óskars fyrir leik sinn sem transgender í Transamerica þó að hún ynni ekki, þá hreppti hún Golden Globe verðlaunin.
En hvað skyldu þau eiga sameiginlegt annað en að leika samkynhneigða þau Tom Hanks (Philadelphia), Hilary Swank (Boy´s don't cry ), Charlize Theron og Christina Ricci (Monster) ásamt ofangreindum Felicity Huffman, Philip Seymour Hoffman og svo auðvitað þeim köppum Heath Ledger og Jake Gyllenhaal (Brokeback Mountain)?
Þau eru öll gagnkynhneigð.
Enda er gert í því að koma því á framfæri meðan myndirnar eru í kynningu. Samanber Heath Ledger sem opinberaði trúlofun við samleikkonu sína í Brokeback og eignaðist barn með henni fljótlega eftir að tökum á myndinni lauk. Philip Seymour Hoffman kynnti kærustuna sína sérstaklega þegar hann tók við Golden Globe verðlaununum. Málið er nefnilega það að þó að gay kvikmyndir eigi miklum vinsældum að fagna núna, þá hefur það ekki breytt neinu um atvinnumöguleika samkynhneigðra leikara í Hollywood.
Sir Ian McKellen hélt nýlega erindi á kvikmyndahátíð í Berlín og sagði við það tækifæri að öllum væri ljóst að það væri miklum erfileikum háð fyrir karlleikara sem ætlaði sér einhvern frama í Bandaríkjunum að vera samkynhneigður eða að opinbera kynhneigð sína.
Ennþá erfiðara er fyrir lesbískar konur að ætla sér einhvern frama í kvikmyndaheiminum.
Hollywood er þess vegna ekkert minna fordómafull í garð samkynhneigðra. Alla vega er leið þeirra upp á hvíta tjaldið rúmlega þyrnum stráð ennþá þó að framleiðendur hafi áttað sig á því að gagnkynhneigðir leikarar geta brugðið sér í hlutverk og skilað milljónum í kassann, bara ef passað er upp á að hetjurnar á hvíta tjaldinu séu 100% "hetero" í raunveruleikanum hvort sem um er að ræða "gay" eða "straight" hlutverk.
Flokkur: Gamalt af kettinum | 12.1.2007 | 16:56 (breytt 17.1.2007 kl. 16:29) | Facebook
Tenglar
Innlendir
Erlendir
- ILGA
- 365 GAY
- IGLHRC The International Gay and Lesbian Human Rights Commission
- Rainbow Network
- Gay Politics and Law
- GALA Suður - Afríka
- Children with LGBT parents