Leita í fréttum mbl.is

Börn samkynhneigðra

Börn samkynhneigðra foreldra eru hópur í samfélaginu sem lítið hefur verið fjallað um. Hingað til hefur ríkt þögn um fjölskyldugerð þeirra í skólanum og þau meta stöðu sína þannig að um hana eigi að þegja.  Þau upplifa tómarúm og oft einmannaleika vegna stöðu sinnar.  Að sjálfsögðu eru aðstæður þeirra mjög mismunandi, sum búa ekki á heimili þess foreldris sem er samkynhneigt og hjá öðrum hafa foreldrarnir kosið að fara í feluleik með sannleikann undir því yfirskini að vernda barnið sitt. 

Alveg síðan ég kom út úr skápnum þá höfum við valið þá leið að vera opinská um okkar fjölskyldumynstur.  Bæði ég og börnin höfum komið fram með stolti og sátt við okkar aðstæður. Auðvitað viðurkenni ég að það hefur ekki alltaf verið auðvelt og við höfum stundum þurft að bíta á jaxlinn þar sem að t.d. skólinn hefur ekki sýnt ábyrgð,  miklu heldur reynt að sniðganga vitneskjuna og komast hjá því að ræða um málin á opinskáan hátt.  En börnin mín eru bæði opin og ófeiminn við að ræða fjölskyldugerð sína þó ég viti að stundum hefur slegið í brynnu,  nú síðast í Borganesi hjá dóttir minni sem hefur fengið á sig gróusögur og óhróður fyrir að verja heiður fjölskyldu sinnar.  Hér á þessari síðu eru ritaðar nokkrar af mínum vangaveltum í gegn um tíðina.


Huldubörn regnbogans - Janúar 2005 

Sonur minn 9 ára hefur undanfarna tvo mánuði þjáðst af skólaleiða sem ekki hefur borið á áður.  Hann sem hefur alltaf verið metnaðarfullur, lært heima og haft gaman af náminu.  Í haust fékk hann nýjan kennara, besti vinurinn flutti burtu, þá kom kennaraverkfallið og núna í desember fór systir hans í heimavistarskóla. Ég bað um fund með kennaranum og námsráðgjafa skólans til þess að saman gætum við leyst úr hnútnum og beint honum á rétta braut.  Námsráðgjafinn reið á vaðið og kom strax með þá tillögu að drengurinn væri svo þjáður af því að eiga samkynhneigða móðir að hann þyrfti e.t.v. að hitta skólasálfræðing!  Ef að svo kynni að vera að krakkarnir væru að stríða honum þá gæti sálfræðingur hjálpað honum að svara fyrir sig.  Ég benti á að drengurinn væri búin að eiga samkynhneigða móðir lengur en hans minni rekur til svo þar væri nú valla mikil breyting á.  Einnig spurði ég hvort rætt hefði verið við hann um þessi mál og hvort hann hefði orðið fyrir áreiti?Sjálfur rak hann upp stór augu og hváði.  Nehei,  það hefur engin sagt neitt við mig  og í bekknum mínum er enginn að tala um mömmu mína.  “ En finnst þér ekkert skrítið að eiga mömmu sem er með annari konu” segir ráðgjafinn vinaleg á svip.  “Þú ert alltaf að spyrja mig að þessu sama” segir hann og yptir öxlum. 

Ég orðin svolítið pirruð ákveð að blanda mér í samræðurnar. Mér finnst nú reyndar ef það er staðreynd að verið sé að áreyta hann með þessari umræðu að einhverjir aðrir en hann þurfi fræðslu? Hefur verið rætt í bekknum um ólíkar fjölskyldur? Er ekki eitthvað sem heitir lífsleikni á föstudögum, hafið þið rætt um fordóma og lífið og tilveruna?  Kennarinn verður til svara: Nei, en við ætlum bráðum að fara að tala um einelti.  Okkur hefur ekki verið skaffað námsefni um nútíma ólíkar fjölskyldugerðir. Mér finnst sonur minn ekki þurfa sálfræðing eða fræðslu um samkynhneigð.  Hann gengur til lífsins með opnu hugarfari er víðsýnn eftir aldri. Hann dregur ekki bekkjarsystkyni sín í dilka og tekur ekki þátt í að áreyta önnur börn í frímínútum.  Reyndar eru bekkjarfélagar hans  ekkert að spá í hver kemur frá hvernig fjölskyldu. Það er fullorðna fólkið sem veltir sér upp úr því.  Niðurstaðan er sú að ég afþakka sálfræði aðstoð fyrir soninn  og bið náðarsamlega um að mér sé send heim á mánudögum áætlun um heimanámið svo að ég geti hjálpað honum með heimanámið. En það er ekki hægt, hann á að skrifa hjá sér áætlun sjálfur.   Niðurstaðan er sú að við hittumst aftur eftir ½ mánuð til að ræða framför hans.................. 

Varnarsigur skólans er algjör.  Sonurinn og lesbían leiðast hönd í hönd út úr skólanum. Hann skilur ekki hvað hann græddi með þessum fundi og ég eyddi 35 mín í almenna fræðslu um fjölskyldumunstrið okkar og fordóma eina ferðina enn.   Ég finn hvernig reiðin ólgar inn í mér.  Sýnileikinn og stoltið eru dýrkeypt.  Það hvarlar að mér að ég standi ein í baráttunni við skólakerfið. Að fáir séu sýnilegir, að allir hinir samkynhneigðu foreldrarnir sé kirfilega á skápnum gagnvart skólakefinu, a ð börnin þeirra tilheyri félaginu  Huldubörn regnbogans.  Eftir hverja orrustu við skólann hvarlar að mér að leita í þögnina og sækja um fyrir börnin mín í huldubörnum regnbogans................ 

Seinna um kvöldið göngum við saman niður Laugarvegin ég og hann. Í glugganum á Hókus Pókus eru marglitar flautur. “Mamma, ætlaði ekki Gay Pride maðurinn að selja þér svona flautu fyrir mig?” Jú alveg rétt, ég var búin að gleyma því.  Mamma, heldur þú að ég geti fengið að vera svona sölumaður næst þegar það verður Gay Pride? Og hafa svona margar flautur hangandi um hálsinn?Huldubörn regnbogans hvað?  Sýnileikinn og stoltið borga sig, alla vega vantar ekkert upp á sjálfsálitið hjá okkur mæðginunum þetta kvöld þegar við látum okkur dreyma um næstu Gay Pride göngu, löngu búin að gleyma fordómafulla námsráðgjafanum!  

Mamma þín er lesbía! -  Maí 2005

Seinni partin í gær hringdi sonur minn dyrabjöllunni og var mikið niðri fyrir. "Mamma Jói á 5 hæðinni kallaði mig homma og sagði að þú værir lesbía". Ég sagðist koma niður og ræða málin.  Þegar ég kom í andyrið var það fyrir skari af krökkum og öll töluðu þau í kapp við hvert annað.  Ég fékk í smáatriðum að heyra hvað Jói hefði sagt og gert.  Ein stúlkan sem greinilega hélt með syni mínum sagði: "Eigum við ekki bara að uppnefna mömmu hans og segja að hún sé tík".  Fyrir utan stóð Jói einn og yfirgefin.  É g útskýrði fyrir þeim að Jói hefði rétt fyrir sér að einu leiti,  ég væri lesbía og það væri ekkert slæmt við það.  Að sonur minn væri að mér best vitandi ekki hommi en jafnvel þó svo væri eða yrði þá væri það ekki heldur slæmt.  Hommar og lesbíur væru bara fólk eins og allir aðrir. Aftur að móti þá væri ekki rétt að segja að mamma hans Jóa væri "tík"  því það væri hún ábyggilega ekki.   Svo kallaði ég í Jóa og spurði hann hvar hann hefði þær upplýsingar að ég væri lesbía hann svaraði því til að mamma hans hefði sagt það.   Ég spurði hvort hann héldi  að það væri eitthvað slæmt fyrir minn son að eiga mömmu sem væri lesbía og hvort ég væri eitthvað öðruvísi mamma?  Já, hann vildi meina það, ég væri miklu skemmtilegri og að ég væri aldrei reið við þau eða að skamma.  Ég ræddi við þau um samkynhneigð og öðruvísi fjölskyldur og að lokum voru allir sammála um að það væri bara allt í góðu að eiga öðruvísi fjölskyldu.   Ég verð að viðurkenna að stundum verð ég þreytt að nágrönnunum, þessum fullorðnu sem heilsa á göngunum og tala svo á bakið á mér þegar ég heyri ekki til.  Ég bý greinilega í stórri blokk innan um fullt af hræddu og fáfróðu fólki sem veit minna um lífið og tilveruna en börnin þeirra.  Ein móðir hefur jafnvel bannað dóttir sinni að vera með syni mínum og hefur ekki gefið neina haldbæra skýringu hvorki börnunum né mér sem reyndi að tala við hana á jákvæðan opinskáan hátt.  En við vitum á þessu heimili að það eina sem gildir er að bera höfuðið hátt og vera stolt.  Við eigum svo marga, marga góða að og þurfum ekki á þessum neikvæðu öflum að halda.  Og ég er hand viss um að Jóhann litli á fimmtu, á eftir að koma vitinu fyrir mömmu sína.  


Um Madditt

Svanfríður Lár
Fjallar um eitt og annað.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband